<$BlogRSDURL$>

Mmm gott rauðvín!

fimmtudagur, júní 9

Nú er ég komin heim á klakann og ennþá meiri bloggleti hefur hrjáð mig svo ég hef ákveðið að taka mér bara pásu í þessu, jafnvel segja bara SLUT.

laugardagur, maí 28

Pökkun...
hefur átt sér stað. Er næstum búin að pakka öllu. Vonandi klárast þetta á skikkanlegum tíma á morgun. Ég er búin að vera að pakka og taka til í þrjá daga núna með mismiklum afköstum og er loksins farin að sjá fyrir endan á þessu. Það er alveg ótrúlegt hvað maður nær að sanka að sér miklu dóti á svona stuttum tíma. Við komum hingað út með tvær stórar ferðatöskur og fengum einn pappakassa sendan. Núna er ég hins vegar búin að fylla 5 kassa, tvær ferðatöskur og á væntanlega eftir að fylla einn kassa enn! Ótrúlegt alveg.

Fór í grillpartý kórsins í gær með tilheyrandi gleði. Það var alveg þvílíkt stuð við langborðið í góða veðrinu (það er sko búið að vera 25° hiti hér síðustu þrjá daga). Það var mikið sungið, borðað og drukkið. Fjalar var sko alveg að standa sig í hljómborðsleiknum og hélt uppi stuðinu mest allt kvöldið. Það var hins vegar ekki eins skemmtilegt að kveðja alla í nótt þegar við fórum að koma okkur heim. Ótrúlegt að hugsa til þess að kannski á maður aldrei eftir að hitta eitthvað af þessu fólki aftur. Við stelpurnar höfðum samt vit á því að skiptast á íslenskum símanúmerum og lofuðum hvor annarri að halda sambandi.

Það er ótrúlegt að þessi vetur skuli vera liðinn. Ævintýrinu er lokið í bili. Þetta er samt örugglega ár sem maður á eftir að minnast oft í framtíðinni. Maður er búin að kynnast fullt af skemmtilegu fólki og gera helling af skemmtilegum hlutum. Ég á eftir að kveðja Lund sátt á mánudagsmorgun held ég, kannski vildi ég fá að hafa veðrið með mér í handfarangri.

Kveðja frá Lundi (í síðasta skipti)
Inga Rut

sunnudagur, maí 22

Lokavikan
Jæja öllum verkefnum lokið þessa önnina og aðeins eitt próf eftir í Kusthydrauliks. Nú er bara spurning um að standa sig í lærdómnum og massa svo prófið á fimmtudaginn. Við Kristín erum orðnar sambýliskonur núna þar sem hún flutti til mín á mánudaginn og sambúðin gengur bara framar vonum ;)

Ég verð nú að viðurkenna það að ég er nú farin að hlakka ansi mikið til að koma heim til Íslands og þá sérstaklega hitta Einar minn! Vonandi verður þessi vika bara fljót að líða og ég verð komin heim áður en ég veit af. Það er allavega nóg að gera þangað til. Um næstu helgi lítur út fyrir að verða stuð þar sem það er kórgrillpartý á föstudagskvöldið og Jagúar tónleikar á laugardagskvöldið hér í Lundi. Á sunnudeginum verð ég að vera búin að pakka og þrífa til að geta skilað lyklunum áður en ég fer.

Eurovision - svekkelsi! Held ég sé ekkert að tjá mig um þetta hérna.

Bið að heilsa ykkur í bili
Inga Rut

sunnudagur, maí 8

Góðan daginn góðir hálsar.
Nú er ég orðin ein í kotinu, Einar yfirgaf á föstudaginn. Það er lítið annað sem kemst að en lærdómur hjá mér þessa dagana þar sem ég er að skila stórum hópverkefnum í lok þessarar viku. Svo er eitt stutt próf (2 tímar), einn eða tveir fyrirlestrar og eitt stórt próf (5 tímar) eftir. Verð búin í prófunum 26. maí og þá hef ég nokkra daga til að pakka og ganga frá áður en ég fer heim.

Annars er ekkert merkilegt að frétta héðan svo ég held að það sé best að halda bara áfram að læra. Bið að heilsa ykkur í bili.

þriðjudagur, maí 3

Vorið er loksins komið.
18°C hiti og sól. Er búin að sitja útí garði að læra eftir að ég kom heim úr skólanum. Við Fjalar og Ásthildur tókum okkur reyndar góða hádegispásu og skelltum okkur niðrí bæ. Ása bættist þar í hópinn. Sátum þar í sólinni og borðuðum dagens rätt á Stortorget. Mjög gott.

Eigum von á nokkrum gestum í grill í kvöld sem er tileinkað honum Einari sem ætlar að stinga af til Íslands á föstudaginn. Ég ákvað að senda hann bara í sveit á Íslandi ;) Hann ætlar ss að skella sér í sauðburðinn í Fagradal í maí. Ég kem svo heim 30. maí.

Núna er hins vegar verkefnapressa í kúrsunum mínum svo það er alveg nóg að gera. Svo fer ég í próf 26. maí og væntanlega í eitt munnlegt fyrir það. Þá er mínu námi í Svíþjóð lokið. Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða.

Jæja best að halda áfram að læra.
Kv. Inga Rut

P.s. Takk fyrir sendinguna Berglind (: Þetta var æði :)

mánudagur, apríl 11

Blogga segiði!!

Það hefur ýmislegt gert síðan síðast. Í fyrsta lagi komu mamma og krakkarnir til okkar um páskana. Við brölluðum ýmislegt, versluðum (sko þau - ekki ég!), skoðuðum Helsingborg, fórum á Bakken, fórum í kaþólska miðnæturmessu í dómkirkjunni hérna í Lundi, keyrðum um Skán o.s.frv. Allavega rosa gaman.

Eftir páskana fór ég svo til Íslands í nokkra daga, fór til læknis (niðurstaða: slitið krossband og rifinn liðþófi:S), í tvær fermingaveislur, í leikhús, í heimsókn til Heiðu og Júlla í nýja húsið, í saumó, í heimsókn til ömmu og afa, í hesthúsaleiðangur með pabba auk þess sem ég var sérlegur bílstjóri ömmu á milli heilsugæslustöðva og apóteka.

Á þriðjudaginn kom ég svo aftur út og hófst svo skólaalvaran á fimmtudaginn. Það byrjaði reyndar rólega hjá mér þar sem ég er bara í einum tíma á fimmtudögum og í fríi á föstudögum. Seinni partinn á föstudaginn skellti ég mér svo í sveitina til Einars og fórum við í grillveislu hjá hestagaur rétt hjá Kristianstad. Þar var rosa fínt - allavega nóg af rauðvíni. Á laugardagskvöldið fórum við svo í matarboð til Fjalars og Ásu ásamt Kristínu Völu, Önnsku og Ásthildi. Þar hélt drykkjan frá kvöldinu áður áfram og endaði á kareoki samsöng um þrjúleitið! Niðurstaðan er góð helgi og fullt af rauðvíni.

Nú eigum við svo von á Berglindi og Gunna í kvöld og er ætlunin að henda kjúlla á grillið í góða veðrinu. Bið að heilsa ykkur í bili.
Sólarkveðjur frá Lundi

sunnudagur, mars 20

Þá er maður komin í páskafríið langþráða. Það byrjaði svo sem ekki vel því mér tókst að rústa hnénu á mér á fimmtudaginn í blakinu. Ég veit ekki alveg hvað gerðist, allavega er ég frekar mikið bólgin og labba eins og gæs! Ég hef hins vegar ákveðið það að fara ekki á spítalann hérna aftur nema í brýnustu neyð og ætla því að bíða og sjá hvort þetta jafni sig ekki bara ;)

Annars eigum við von á mömmu og co á morgun og ætla þau að vera hérna hjá okkur til 30. mars. Ég er svo nýbúin að ákveða að skella mér heim með þeim og vera til 5. apríl á Fróninu þar sem það er frí í skólanum hjá mér til 7. apríl. Einar verður hins vegar hérna úti að vinna því það má víst ekki skrópa þar þegar manni hentar.

Ég reikna ekki með að nenna að blogga mikið fram yfir páska svo ég læt það bara flakka núna... GLEÐILEGA PÁSKA :)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com