<$BlogRSDURL$>

Mmm gott rauðvín!

föstudagur, febrúar 27

Vúhú. Próftaflan var að koma og það lítur út fyrir að ég komist með í árshátíðarferð með vinnunni til Budapest:)
Ég er að fatta það að í næsta mánuði eru 10 ár síðan ég fermdist!!! Vá ég er orðin gömul! Það er gaman að rifja þennan dag upp (það sem ég man).

Mig minnir að ég hafi vaknað frekar snemma til að mæta í hárgreiðslu. Amma, afi og einhvað fleira útálandilið gisti hjá okkur og því var líf og fjör þegar ég kom heim. Þó var enginn tími til að hangsa því að fermingin byrjaði klukkan 11 (minnir mig!). Þá var að koma sér í fötin og uppí kirkju í englakjólinn. Við vorum rúmlega 30 að fermast þennan dag (minnir mig) og messan stóð í rúman klukkutíma. Presturinn var séra Flóki sem var reyndar nokkrum mánuðum seinna vikið úr starfi!! Hann skilaði þessu ágætlega, allavega nógu vel til að við gengum öll út úr kirkjunni sem fólk sem búið var að taka í fullorðinna manna tölu.
Þegar þessu var nú lokið var stefnan tekin á Sogaveginn þar sem við systkinin fórum í myndatöku. Eftir myndatökuna lá leiðin í veisluna sem haldin var í sal Breiðfirðinga í Faxafeninu. Þar biðu miklar kræsingar sem mamma og fylgilið höfðu verið að dunda sér við. Ég fékk fullt af pökkum og kveðjum frá þessum 90 manns sem mættu í veisluna. Þar má helst nefna rúm, hnakk, skrifborðsstól, svefnpoka, tjald og margt fleira.
Einhvern tíman seinni partinn voru svo flestir farnir og hófust þá selflutningar miklir heim í Glaðheimana með fólk, pakka og afganga. Um kvöldið skellti ég mér svo yfir í næsta hús í veisluna til Ólafar. Ætli ég hafi svo ekki bara farið að sofa uppúr miðnætti, södd og sæl og þó nokkuð ríkari.

Einhvern veginn grunar mig að systir mín eigi eftir að verða ennþá ríkari en ég varð við svipað tilefni 10 árum síðar!

fimmtudagur, febrúar 26

Skrítið hvað sumar helgar eru pakkaðar og aðrar er ekkert að gera. Ég þyrfti helst að vera tvöföld, jafnvel þreföld þessa helgina. Ég held ég hafi varla 10 mínútur aflögu frá sjö á föstudegi til sunnudagsmorguns.

mánudagur, febrúar 23

Langar einhvern með mér á hestbak núna??

fimmtudagur, febrúar 19

Tók eftir því að heimsóknirnar eru að verða 1000. Hver verður sá heppni??
Ekki flöskudagur lengur segir Heiða. Ég verð bara að trúa því!!

Á föstudaginn er árshátíð verkfræðinema. Ég beit það í mig á fyrsta ári í HÍ að ég væri komin með ógeð af menntaskólafílingnum og nennti ekkert að vera að fara árshátíðina sem mér fannst vera í líkingu við menntaskólaböll á Broadway. Það virðist vera þannig að ég hef ekki náð að losa bitið og hef ekki enn farið á árshátíð verkfræðinema. Þetta árið ætla ég því ekkert að vera að breyta út af vananum og vera bara heima á föstudaginn.
Annars vil ég bara óska ykkur, sem ætlið að fara, góðrar skemmtunar í Hvergerði:)

föstudagur, febrúar 13

Flöskudagur í dag segiði. Ég held að hann verði það ekki hjá mér í þetta skiptið. Það er frænkuhittingur heima hjá mér í kvöld, kominn tími til eins og Kolla minntist á. Það verður víst ekkert djúsað í þetta skiptið þar sem þær eru tvær óléttar í hópnum, ekki leiðinlegt það, örugglega bara borðað og talað þeim mun meira.

Hvað finnst ykkur annars um Rut Reginalds málið?
Ég verð nú að viðurkenna það að mér finnst þetta ekki eiga heima í sjónvarpi. Vil samt taka það fram að ég er ekki á móti lýtalækningum. Ég er hins vegar mjög ánægð með að lýtalæknirinn hafi hætt við að gera aðgerðirnar í sjónvarpinu.

þriðjudagur, febrúar 10

Það er nú soldið spes veðurfarið á þessu landi. Fyrir tveimur dögum var 10 stiga frost en núna er 7 stiga hiti!!

mánudagur, febrúar 9

Þá er ein helgin enn búin. Náði að sofa út báða dagana - þvílíkur lúxus!
Við Einar skelltum okkur á þorrablót á laugardagskvöldið og dönsuðum frá okkur allt vit. Ég var orðin ansi ringluð eftir eitt lagið, við snerumst svo rosalega um gólfið. Hvort það var bara dansinn sem gerði það að verkum er annað mál:)

föstudagur, febrúar 6

Rosalega er erfitt að vakna á morgnanna. Ég er strax farin að hlakka til að sofa út á morgun!

fimmtudagur, febrúar 5

Bara komin snjór aftur og svo á víst að vera 10 til 15 stiga frost um helgina, brrr.
Ég verð nú að viðurkenna það að ég er farin að hlakka til að fara í saumó í kvöld. Það er orðið soldið langt síðan að við hittumst síðast - alveg kominn tími til. Svo er þorrablót á laugardaginn þannig að ég þarf að fara að pússa dansskóna til þess að vera tilbúin í snúninginn:)

mánudagur, febrúar 2

Ef einhver er hetja þá er það hún Helena frænka mín!
Þvílík snilld. Mæli með því að allir hlusti á hann syngja!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com