<$BlogRSDURL$>

Mmm gott rauðvín!

mánudagur, janúar 31

Einn af tólf!!
Á föstudaginn þegar ég vaknaði leið mér eins og ég hafði verið hjá tannlækni og deyfingin væri svona næstum farin úr mér, því ég var hálf dofin í vinstri kinninni og hökunni. Þegar þetta var ennþá svona á laugardagskvöldi og orðið heldur meira frekar en hitt ákvað ég að skella mér bara á slysó á sunnudagsmorguninn. Ég fékk Einar með mér og við vorum komin uppá spítala um 11.30. Ég tók númer og talaði við hjúkku þegar röðin kom að mér eftir frekar stutta bið, ekki nema ca. 20 mín. Þá var mér sagt að borga (300 SKR) og svo yrði kallað á mig inn eftir einhverja stund. Við biðum svo eftir kallinu í ca. 40 mín. Þegar inn var komið var hjúkka sem tók við mér og tók nokkrar blóðprufur, sem tók soldið á "barnið" í mér þar sem ég er með algjöra sprautufóbíu. Þegar hér er komið við sögu er klukkan orðin 20 mín í 12 og hjúkkan sagði við okkur að það tæki ca. 1 og hálfan tíma að fá útúr þessum blóðprufum. Við spurðum hvort við mættum fara út sem hún leyfði en bað okkur samt að koma ekki seinna en 13.30. Við vorum svo mætt aftur á biðstofuna 13.15 og biðum þar til rúmlega 15. Þá vorum við loksins kölluð inn og vonuðumst til að þessu færi þá senn að ljúka.

Góðleg hjúkka leiddi okkur inní lítið læknaherbergi og sagði að læknirinn kæmi svo og talaði við okkur. Við tók LÖNG bið. Þá er ég að tala um mjöög langa bið. Um 17.30 kom til okkar læknakandídat á mínum aldri. Hún gerði á mér alls konar próf með gátlista til hliðsjónar, tékkaði á viðbrögðum og þess háttar. Þegar hún hafði lokið sér af sagðist hún nú vonast til að læknirinn kæmi nú fljótlega.

Aftur tók við bið og þolinmæði mín var senn á þrotum og endaði með því að ég fór að láta í mér heyra á minni góðu sænsku. Ég var ekki alveg sátt við þessa endalausu bið. Það virkaði að kvarta í þetta skiptið og læknirinn kom loksins um 18.30. Hann talaði við mig og spurði mig sömu spurninganna og ég hafði svarað þrisvar áður sama daginn. Hann gerði svo prófin sem kandídatinn hafði gert á margföldum hraða og sagðist svo vilja senda mig í heilaskanna. Hann hvarf svo jafn hratt og hann birtist.

Við biðum ca. hálftíma eftir að komast í skannann og gekk það allt frekar hratt fyrir sig. Við röltum svo aftur niður í okkar kæra herbergi. Hjúkkan kom svo og heilsaði upp á mig og vildi fleiri blóðprufu mér til lítillar ánægju og sagðist svo vona að læknirinn kæmi fljótlega. Klukkan á þessum tíma var ca. 19.15.

Klukkan 20.30 kom svo læknirinn aftur til okkar og tilkynnti að ekkert hafði sést í skannanum og því ætlaði hann að gera eitt test í viðbót. Ef ég hefði vitað fyrir fram hvað hann ætlaði að gera hefði ég hlaupið eins hratt og ég kæmist út! Hann sagði mér að setjast á bekkinn og hann fór að þukla á bakinu á mér, ýta í hrygginn og mjaðmabeinin. Hjúkkan kom svo með einhvern púða og borði sem ég átti að leggja hausinn fram á. Hjúkkan bað svo Einar vinsamlegast um að sitja svo þau hefðu örugglega bara einn sjúkling að hugsa um! Læknirinn sagði svo að hann ætlaði að deyfa mig og stakk mig með enn einni sprautunni. Svo byrjaði aðal dæmið, hann fór að stinga í bakið á mér og það gekk ekkert rosa vel og á endanum var næstum liðið yfir mig svo Einar og hjúkkan þurftu að leggja mig niður. Læknirinn og læknaneminn héldu svo áfram að krukka í bakinu á mér, sem var nb ekki gott. Þeir voru greinilega alltaf að hitta einhverjar taugar - frekar óþægileg tilfinning. Ég lá þarna á bekknum í fósturstellingunni alveg að skíta á mig af hræðslu með Einar í annarri hendinni og hjúkkuna í hinni. Loksins hættu þeir krukkinu og fóru að dæla mænuvökva út. Nb. Einar fylgdist spenntur með aðförum læknisins á meðan læknaneminn var hálf grænn í framan og þurfti að snúa sér undan á meðan á þessu stóð. Þegar þessu var loksins lokið sýndi hjúkkan mér nálina sem var í bakinu á mér og ég er ekki að ýkja, hún var ca 10 cm að lengd. Eins gott að ég sá hana ekki áður!

Nú varð ég að liggja þarna í rúma tvo tíma (mátti ekki sitja né standa) þar til læknirinn kom loksins aftur og sagði að ég mætti fara heim og gaf mér lyfseðil fyrir pensilíni. Við löbbuðum ss út af slysó klukkan 22.45. Niðurstaðan var næstum tólf tímar á slysó, þar af ca. einn með lækni, hjúkku eða kandídat. Það góða í þessu öllu var að það var allavega ekkert alvarlegt að mér, mesta lagi bólgur í ennisholum og þá kannski sýking!

Kveðja frá
sprautufóbíunni:)

P.s. ef þið trúið mér ekki með lengdina á sprautunni þá tók ég hlífina af henni með mér svo ég get sýnt ykkur ef þið viljið ;)

föstudagur, janúar 28

Væri alveg til í að vera á leiðinni vestur núna með þorrablótsmiða í rassvasanum!
En eins og mamma hefur sagt og segir reglulega: ,, Maður getur ekki gert allt sem maður vill".

þriðjudagur, janúar 25

Huhumm!
Vegna fjölda áskoranna héðan og þaðan úr heiminum læt ég undan og blogga soldið loksins! Af okkur hjúunum er svo sem ekkert merkilegt að frétta nema það að skólinn hjá mér og vinnan hjá Einari eru komin á fullt skrið.

Ég er búin að fara í tvö próf síðan ég kom út og gengu þau bara nokkuð vel. Ég náði sem sagt stálprófinu og brilleraði í sænskunni ;) Núna eru hins vegar byrjaðir nýir kúrsar og verkefni komin á fullt. Ég er í þremur kúrsum á þessari önn sem verða reyndar allir fram á vor. Á seinni önninni sem byrjar í mars fer ég svo í einn kúrs í viðbót. Kúrsarnir sem ég er í núna eru Brobyggnadsteknik, Byggsystem og Strukturakustik en sá sem ég tek á seinni önninni er Skadeanalys. Mér líst bara ágætlega á þessa kúrsa, það er mikil verkefnavinna en ekki svo mikið af prófum - sem er nú gott út af fyrir sig:)

Einar er bara á fullu í tamningunum og líkar ennþá mjög vel. Hann er að reyna að koma bílgarmi, sem fólkið sem hann vinnur hjá á, í gang til að geta komið heim oftar en einu sinni í viku. Hann er sem sagt að vinna þriðjudaga til laugardaga og er að vonast til að geta komið heim einu sinni allavega í millitíðinni.

Ég held ég láti þetta duga í bili er nebbla að fara að koma mér á mína fyrstu kóræfingu - já ekki hlægja neitt af því! Vil annars enda á að bjóða tvö kríli velkomin í heiminn, annars vegar Kára Heiðu- og Júllason og hins vegar Þórólfs- og Katrínardóttur :o)

Kv. frá Vildandsvägen


laugardagur, janúar 8

Nästa station Lund C.
Mættum hingað aftur í Lundinn okkar á fimmtudaginn. Ég fór í þetta blessaða próf í gær og get nú ekki sagt að það hafi gengið vel enda kannski ekki við öðru að búast miðað við lærdóminn undanfarna daga. Get ekki sagt að það hafi verið auðvelt að halda sér við efnið síðustu dagana á Íslandi. Miklu meira spennandi að hitta allt fólkið og eyða tíma með því en að læra.
Jólin voru fín fyrir utan það hvað þau voru fljót að líða. Ég var að vinna frá því ég kom heim og fram að áramótum á Almennu og Einar var að vinna fyrir húsfélagið í Glaðheimunum. Við náðum líka að flakka soldið mikið þessi jólin eins og önnur og má segja að tíminn höfðum hafi verið vel planaður, eiginlega einum of. Við vorum svo norður á Akureyri um áramótin sem var mjög gaman.
Núna erum við hins vegar í okkar fyrsta fríi síðan í sumar sem er mjög notalegt. Við skelltum okkur í bíó í gærkvöldi í fyrsta skipti síðan um jólin fyrir rúmu ári enda kominn tími til. Í dag sváfum við út og skelltum okkur síðan til Malmö í IKEA. Þegar við vorum svo á leiðinni heim og komum á lestarstöðina í Malmö var öllum lestum aflýst vegna veðurs!! Ferðin endaði því á því að við tókum leigubíl til Lundar. Stefnan er svo að hafa það notalegt í kvöld og horfa á imbann og sofa aftur út á morgun:)
Biðjum annars bara að heilsa öllum í bili.
Kveðja úr storminum í Sverige
Inga Rut og Einar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com